Mengi A er sagt vera hlutmengi í mengi B ef sérhvert stak í A er líka stak í B. Þetta er táknað með A⊂B. Á Venn-myndinni að neðan er A hlutmengi í B því svæðið innan minni hringsins (sem táknar stökin í A) er líka innan stærri hringsins (sem táknar stökin í B).
Dæmi: Mengið A={1,2,5,6} er hlutmengi í menginu B={1,2,3,4,5,6}, þ.e. A⊂B, því sérhvert stak í A er líka stak í B.
Dæmi: Mengið N er hlutmengi í Z því sérhver náttúruleg tala er líka heil tala, Z er hlutmengi í Q því sérhver heil tala er líka ræð tala og Q er hlutmengi í R því sérhver ræð tala er líka rauntala. Með öðrum orðum gildir að N⊂Z⊂Q⊂R. Venn-myndin hér að neðan sýnir innbyrðis afstöðu þessara rauntalnamengja.
Dæmi: Látum A vera mengi. Sérhvert stak í tóma menginu er líka stak í A, þ.e. ∅⊂A, því tóma mengið hefur ekkert stak. Einnig gildir augljóslega að sérhvert stak í A er líka stak í A, svo A⊂A.
Eiginlegt hlutmengi
Ef A er hlutmengi í B geta A og B verið sama mengið eins og síðasta dæmið að ofan sýnir. Hins vegar gerist þess oft þörf að útiloka þennan möguleika og það leiðir til eftirfarandi skilgreiningar: Ef A er hlutmengi í B og auk þess eru A og B ekki sama mengið er sagt að A sé eiginlegt hlutmengi í B. Þetta er táknað með A⫋B.
Munurinn á hlutmengi og eiginlegu hlutmengi er sem sagt sá að seinna hugtakið felur í sér meiri upplýsingar en það fyrra: A⊂B segir einungis að sérhvert stak í A sé líka stak í B, en A⫋B segir auk þess að A og B séu ekki sama mengið.
Dæmi: Mengið A={1,2,5,6} er eiginlegt hlutmengi í menginu B={1,2,3,4,5,6}, þ.e. A⫋B, því A er hlutmengi í B og auk þess eru A og B ekki sama mengið. Í þessu dæmi er þess vegna bæði rétt að segja að A⊂B og að A⫋B, eini munurinn er sá að seinni rithátturinn gefur meiri upplýsingar en sá fyrri.
Dæmi: Við vitum þegar samkvæmt dæmi að ofan að N⊂Z. Einnig vitum við að −1 er heil tala en ekki náttúruleg tala, svo N og Z eru ekki sama mengið og því getum við líka sagt að N⫋Z.
Sömuleiðis vitum við þegar að Z⊂Q. Einnig vitum við að 12 er ræð tala en ekki heil tala, svo Z og Q eru ekki sama mengið og því getum við líka sagt að Z⫋Q.
Loks vitum við þegar að Q⊂R. Einnig vitum við að √2 er óræð tala, svo Q og R eru ekki sama mengið og því er Q⫋R.
Með öðrum orðum getum við sagt að N⫋Z⫋Q⫋R.
Dæmi: Um öll ekki-tóm mengi A gildir að ∅⫋A því þá er til stak í A sem er ekki í ∅. Hins vegar er A ekki eiginlegt hlutmengi í A.
Myndun nýrra hlutmengja
Fyrir sérhvert mengi A og opna yrðingu p(x) gildir að lausnamengi p(x) í A er hlutmengi í A, þ.e. {x∈A∣p(x)}⊂A. Þannig má mynda ný hlutmengi í A á ótal vegu með notkun opinna yrðinga.
Dæmi: Nota má opnu yrðingarnar p(x): „x er slétt tala“, q(x): „x2≤16“ og r(x): „x4=81“ til að smíða ný hlutmengi í Z. Þau eru:
- {x∈Z∣xer slétt tala}={…,−4,−2,0,2,4,…}.
- {x∈Z∣x2≤16}={−4,−3,−2,−1,0,1,2,3,4}.
- {x∈Z∣x4=81}={−3,3}.