- Neitun
Ekki
Fyrir sérhverja yrðingu p er ¬p (lesið: „ekki p“) sú yrðing sem fæst með því að neita yrðingunni p. Yrðingin ¬p hefur þess vegna alltaf öfugt sanngildi við yrðinguna p. Þessari staðreynd má lýsa með eftirfarandi töflu, sem sýnir sanngildi ¬p eftir ólíkum sanngildum p:
p | ¬p |
1 | 0 |
0 | 1 |
Dæmi:
- Látum p tákna yrðinguna „Reykjavík er höfuðborg Íslands“. Þá táknar ¬p yrðinguna „Reykjavík er ekki höfuðborg Íslands“, sem er ósönn.
- Látum p tákna yrðinguna „Sólin er reikistjarna“. Þá táknar ¬p yrðinguna „Sólin er ekki reikistjarna“, sem er sönn.
Fyrir sérhverja opna yrðingu p(x) er ¬p(x) (lesið: „ekki p(x)“) sú opna yrðing sem fæst með því að neita p(x).
Ef A er mengi og p(x) hefur lausnamengið P í A, þá er lausnamengi ¬p(x) í A gefið með mengjamun A og P, þ.e. {x∈A∣¬p(x)}=A∖P.
Dæmi:
- Látum p(x) tákna opnu yrðinguna „x er slétt tala“. Þá táknar ¬p(x) opnu yrðinguna „x er ekki slétt tala“. Lausnamengi p(x) í menginu N er P={0,2,4,6,…}, svo lausnamengi ¬p(x) í N er
N∖P={1,3,5,7,…}.