Með hnitakerfi er almennt átt við leið til að staðsetja punkta á rúmfræðilegum hlut með tölum sem eru kölluð hnit punktsins. Ef það þarf $n$ hnit til að tilgreina punktinn er sagt að hnitakerfið sé $n$-vítt.
Dæmi: Staði á yfirborði jarðar má staðsetja með því að tilgreina lengdar- og breiddargráðu þeirra. Það er því dæmi um tvívítt hnitakerfi. Ef við bætum þriðju tölunni við, sem tilgreinir fjarlægð frá miðju jarðar, þá erum við komin með þrívítt hnitakerfi. Þá væri hægt að staðsetja hluti ofan í jörðinni eða tunglið.
Dæmi: Talnalínan er dæmi um einvítt hnitakerfi. Sérhver punktur á henni ákvarðast ótvírætt af rauntölu.
Mikilvægi hnitakerfa felst í því að þau tengja saman rúmfræði og algebru. Þau er hægt að nota til að þýða rúmfræðileg verkefni yfir í algebruleg verkefni og öfugt. Þau eru eitt mikilvægasta framlag stærðfræðinga 17. aldarinnar og eru oft eignuð franska heimspekingnum René Descartes.
Algengustu hnit á evklíðskri sléttu eru kartesk hnit og skauthnit. Þau má útvíkka í kartesk hnit og sívalningshnit á evklíðsku rúmi. Þar eru kúluhnit einnig oft þægileg.