Strik sem hefur báða endapunkta sína á hring kallast strengur í hringnum. Ef strengurinn liggur í gegnum miðju hringsins þá kallast hann miðstrengur og lengd miðstrengsins kallast þvermál hringsins. Hringur með geisla $r$ hefur þvermál $2r$.
Dæmi: Á myndinni er hringur með miðju $M$. Strikið $AB$ er strengur í hringnum og strikið $CD$ er miðstrengur. Ef geisli hringsins er $r$, þá er $|CD|=2r$.
Lína sem sker hring í tveimur ólíkum punktum kallast sniðill við hringinn. Lína sem sker hring í nákvæmlega einum punkti kallast snertill við hringinn.
Dæmi: Á myndinni er hringur með miðju $M$. Línan í gegnum punktana $A$ og $B$ er sniðill við hringinn og línan í gegnum punktinn $C$ er snertill. Snertillinn er hornréttur á geislann $MC$ samkvæmt setningunni hér fyrir neðan.
Setning: Látum $l$ vera línu sem sker hring með miðju $M$ í punkti $P$. Línan $l$ er snertill við hringinn þá og því aðeins að geislinn $MP$ sé hornréttur á línuna $l$.