Skip to Content

Sérhver hálflína tilgreinir stefnu. Tvær hálflínur geta hinsvegar ýmist tilgreint sömu stefnuna eða ólíkar stefnur:

  • Allar ólíkar hálflínur með sama upphafspunkt tilgreina ólíkar stefnur og allar ósamsíða hálflínur tilgreina líka ólíkar stefnur.

  • Ef tvær hálflínur liggja á ólíkum samsíða línum þannig að hálflínurnar liggja sömu megin við línuna í gegnum upphafspunkt þeirra, þá hafa hálflínurnar sömu stefnu.

  • Ef ein hálflína liggur að öllu leiti á annarri hálflínu, þá skilgreina hálflínurnar sömu stefnuna.

Hálflína og gagnstæð hálflína hennar hafa gagnstæðar stefnur.

Dæmi:   Á myndinni sjást þrjár hálflínur sem liggja á tveimur samsíða línum. Bláu hálflínurnar hafa sömu stefnu. Rauða hálflínan hefur gagnstæða stefnu við bláu hálflínurnar. Allar hálflínur sem eru ósamsíða þessum hálflínum hafa aðra stefnu en þær.

Tvær stefnur línu

Á tiltekinni línu geta bara legið hálflínur með tvær mismunandi stefnur. Oft er önnur þessara stefna valin. Hún er þá kölluð jákvæða stefnan og gagnstæð stefna hennar neikvæða stefnan. Þegar þetta er gert, þá er jákvæða stefnan yfirleitt gefin til kynna á mynd með ör. Lína ásamt vali á annarri stefnu sinni kallast stefnd lína.

Dæmi:   Á myndinni eru þrjár stefndar línur. Allar hafa þær ólíkar stefnur. Bláa og rauða línan eru samsíða en hafa gagnstæðar stefnur.

Við getum alltaf valið stefnu fyrir staka línu. Það er hinsvegar mun snúnara að velja stefnur fyrir margar línur þannig að samræmis gæti eins og kemur fram í næsta dæmi.

Dæmi:   Hugsum okkur að við hengjum lóð neðaní snærisspotta og höldum hinum enda hans kyrrum þannig að lóðið hangi í lausu lofti. Þá getum við hugsað okkur línu sem liggur í gegnum lóðið og höndina sem heldur um snærið. Við erum vön að kalla stefnur þessarar línu upp og niður.

Allir sem eru nálægt okkur eru sammála um hvaða stefna sé upp og hvaða stefna sé niður. Ef við förum í sumarfrí til Ástralíu eða skreppum til tunglsins, þá væru líka allir sem væru með í ferðinni áfram sammála um hvað væri upp og hvað niður. Upp á jörðinni og upp á tunglinu eru hinsvegar yfirleitt gerólíkar stefnur. Eins er stefnan upp á Íslandi nálægt því að vera stefnan niður í Ástralíu.