Skip to Content

Látum $A$ og $B$ vera tvo ólíka punkta sem liggja á tilteknum hring með miðju $M$. Þeir skipta hringnum í tvo hringboga með endapunkta $A$ og $B$. Tveir punktar á hringnum tilheyra sama hringboganum ef þeir eru sömum megin við línuna $\left<AM\right>$ og einnig sömum megin við línuna $\left<BM\right>$.

Ef $\angle AMB$ er eiginlegt horn, þá liggur annar hringboginn innaní horninu, fyrir utan endapunktana sem liggja á örmum þess. Við segjum að hornið spanni þann hringboga sem er innaní horninu. Hinn hringboginn, sem liggur utanvið hornið, kallast þá fyllibogi hornsins.

Dæmi:   Á myndinni má sjá hringbogana á milli $A$ og $B$ með miðju í $M$. Sá þessara hringboga sem er innaní horninu $\angle AMB$ er dekkri.

Oft er greint á milli hringboganna með endapunkta $A$ og $B$ með því að tiltaka punkt á öðrum þeirra, annan en endapunktana. Þannig er oft talað um „hringbogann $ACB$“ sem hefur endapunkta $A$ og $B$ og liggur í gegnum punktinn $C$.