Skip to Content

Sniðmengi tveggja mengja $A$ og $B$ er mengi þeirra staka sem eru í báðum þeirra. Þetta mengi er táknað með $A \cap B$ (lesið: $A$ snið $B$) og það má rita á forminu \[ A \cap B = \{x \mid x \in A \text{ og } x \in B\}. \]

Sammengi tveggja mengja $A$ og $B$ er mengi þeirra staka sem eru a.m.k. í öðru þeirra. Þetta mengi er táknað með $A \cup B$ (lesið: $A$ sam $B$) og það má rita á forminu \[ A \cup B = \{x \mid x \in A \text{ eða } x \in B\}. \]

Vörpun $f$ frá mengi $X$ yfir í mengið $Y$ er forskrift eða regla sem úthlutar sérhverju staki úr $X$ nákvæmlega einu staki úr $Y$. Stakið úr $Y$ sem $f$ úthlutar $x$ er táknað með $f(x)$ og kallast gildi vörpunarinnar $f$ í $x$. Jafnframt er sagt að $f$ varpi $x$ í $f(x)$. Mengið $X$ kallast skilgreiningarmengi vörpunarinnar og mengið $Y$ kallast bakmengi hennar. Rithátturinn $f: X \to Y$ er notaður til að tákna vörpun $f$ með skilgreiningarmengi $X$ og bakmengi $Y$ og ef forskrift hennar er þekkt er hún látin fylgja.

Látum $X$ vera mengi. Vörpunin frá $X$ yfir í $X$ sem varpar sérhverju staki úr $X$ í sjálft sig kallast samsemdarvörpun mengisins $X$ og er táknuð með $\mathrm{id}_X$. Með öðrum orðum er samsemdarvörpunin sú vörpun $\mathrm{id}_X: X \to X$ sem hefur forskriftina $\mathrm{id}_X(x) = x$.

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun og $A$ vera hlutmengi í $X$. Mengi allra gilda sem $f$ tekur á menginu $A$ er táknað með $f(A)$ og kallast mynd vörpunarinnar $f$ af menginu $A$. Hana má rita á forminu \[ f(A) = \{f(x) \in Y \mid x \in A\}. \]

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun og $y$ vera stak úr $Y$. Frummynd $f$ af einstökungnum $\{y\}$, þ.e. mengi þeirra staka úr $X$ sem $f$ varpar í $y$, kallast trefja vörpunarinnar $f$ af stakinu $y$. Þegar ekki er hætta á misskilningi er trefjan $f^{-1}(\{y\})$ einfaldlega táknuð með $f^{-1}(y)$. Hana má einnig skilgreina sem mengi allra lausna jöfnunnar $f(x) = y$ og því má rita hana á forminu. \[ f^{-1}(y) = \{x \in X \mid f(x) = y\}. \]

Frummynd

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun og $B$ vera hlutmengi í $Y$. Mengi þeirra staka úr $X$ sem $f$ varpar í stak úr $B$ er táknað með $f^{-1}(B)$ og kallast frummynd vörpunarinnar $f$ af menginu $B$. Hana má rita á forminu \[ f^{-1}(B) = \{x \in X \mid f(x) \in B\}. \]

Látum $A$ vera mengi. Mengið sem samanstendur af öllum hlutmengjum í $A$ kallast veldismengi mengisins $A$ og er táknað með $\mathcal{P}(A)$.

Almennt gildir að ef fjöldi staka í menginu $A$ er $n$, þar sem $n$ er náttúruleg tala, er fjöldi staka í veldismengi þess $2^n$.

Mengi $A$ er sagt vera hlutmengi í mengi $B$ ef sérhvert stak í $A$ er líka stak í $B$. Þetta er táknað með $A \subset B$.

Tóma mengið

Á sama hátt og ílát getur verið tómt, þ.e. innihaldið engan hlut, getur mengi verið tómt, þ.e. haft ekkert stak. Til er nákvæmlega eitt slíkt mengi, sem kallast tóma mengið og er táknað með $\displaystyle \varnothing$. Það má rita á forminu \[ \varnothing = \{ \; \}. \]

Syndicate content