Skip to Content

Látum $A$ vera rauntalnamengi. Rauntalan $L$ kallast undirtala mengisins $A$ ef fyrir öll $x \in A$ gildir að $x \geq L$. Ef $A$ hefur a.m.k. eina undirtölu er sagt að það sé takmarkað að neðan.

Látum $A$ vera rauntalna- eða tvinntalnamengi. Sagt er að $A$ sé takmarkað ef til er rauntala $C$ þannig að $|x| \leq C$ fyrir öll $x$ úr $A$.

Fyrir rauntalnamengi $A$ gildir að $A$ er takmarkað ef og aðeins ef það er bæði takmarkað að neðan og takmarkað að ofan, þ.e. ef og aðeins ef það hefur bæði undirtölu og yfirtölu.

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun og $A$ vera hlutmengi í $X$. Sagt er að vörpunin \[ f|_A : A \to Y; \quad f|_A(x) = f(x) \] sé einskorðun vörpunarinnar $f$ við mengið $A$. Eini munurinn á $f$ og $f|_A$ er að $f$ hefur skilgreiningarmengið $X$ meðan $f|_A$ hefur skilgreiningarmengið $A$.

Eftirfarandi setning er alltaf kennd við gríska stærðfræðinginn Pýþagóras (um 570-495 f.Kr.) og kölluð setning Pýþagórasar.

Setning:   Látum $c$ vera lengd langhliðarinnar í rétthyrndum þríhyrningi og $a$ og $b$ vera lengdir skammhliðanna. Þá gildir að \[a^2+b^2=c^2.\]

Tvennd samanstendur af tveimur hlutum í tiltekinni röð og er tvenndin sem inniheldur hlutina $a$ og $b$ í þessari röð táknuð með $(a, b)$.

Tvær tvenndir $(a, b)$ og $(c, d)$ eru sagðar vera jafnar (þ.e. sama tvenndin) ef $a = c$ og $b = d$ og þá er ritað $(a, b) = (c, d)$.

Faldmengi

Látum $A$ og $B$ vera mengi. Mengið sem samanstendur af öllum tvenndum af gerðinni $(a, b)$ þar sem $a \in A$ og $b \in B$ er táknað með $A \times B$ (lesið: $A$ kross $B$) og kallast faldmengi mengjanna $A$ og $B$.

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun. Mengi allra tvennda af gerðinni $(x,f(x))$, þar sem $x \in X$, kallast graf vörpunarinnar $f$ og er táknað með $G_f$. Það má rita á forminu \[ G_f = \{(x,f(x)) \mid x \in X\}. \]

Mynd (vörpunar)

Látum $f: X \to Y$ vera vörpun. Mynd vörpunarinnar $f$ af skilgreiningarmenginu $X$, þ.e. mengi allra gilda sem vörpunin tekur, kallast mynd vörpunarinnar $f$. Hana má rita á forminu \[ f(X) = \{ f(x) \in Y \mid x \in X \}. \]

Oft er það svo að öll mengi, sem verið er að skoða í einhverju sambandi, eru hlutmengi af einu og sama menginu $G$. Þá getur verið gagnlegt að líta svo á að mengið $G$ innihaldi allt sem við höfum áhuga á að fjalla um og að það sem sé utan $G$ varði okkur engu. Þegar svo er gert er mengið $G$ stundum kallað grunnmengi.

Við þessar aðstæður þarf oft að fjalla um mengjamun af taginu $G \setminus A$, þar sem $A$ er hlutmengi í $G$. Ef enginn vafi leikur á hvert mengið $G$ sé, þá er þessi mengjamunur kallaður fyllimengi mengisins $A$ og hann er táknaður með $A^c$. Ýmis önnur tákn þekkjast fyrir fyllimengi $A$; til dæmis $\overline{A}$, $A’$ og $\mathbf{C}A$. Við höfum sem sagt: \[ A^c = G \setminus A. \] Óformlega má segja að fyllimengið $A^c$ sé sá hluti grunnmengisins sem liggur utan mengisins $A$.

Mengjamunur

Mengjamunur tveggja mengja $A$ og $B$ er mengi þeirra staka sem eru í $A$ en ekki í $B$. Þetta mengi er táknað með $A \setminus B$ (lesið: $A$ án $B$) og það má rita á forminu \[ A \setminus B = \{x \in A \mid x \notin B\}. \]

Syndicate content