Skip to Content

Til að mæla lengdir er yfirleitt þægilegast að búa sér til mælistiku. Mælistikur má gera úr áþreifanlegum hlutum en það má líka gera rúmfræðilegar mælistikur á einhverri línu. Venjulegar reglustikur eru dæmi um fyrri gerðina en talnalínur eru dæmi um þá seinni.

Setning:   Í þríhyrningi hefur ein hliðin lengd $g$ og hæðin á þessa hlið hefur lengd $h$. Flatarmál þríhyrningsins $F$ er þá gefið með jöfnunni \[F=\tfrac{1}{2}gh.\]

Í því samhengi sem setningin lýsir þá er hliðin af lengd $g$ stundum kölluð grunnhlið þríhyrningsins.

Flatarmál rétthyrnings er margfeldi hliðarlengda rétthyrningsins. Ef lengd hliðanna er mæld með tiltekinni lengdareiningu, þá er flatarmál rétthyrningsins mælt í fereiningum, þar sem ein fereining er ferningur með hliðar sem er 1 lengdareining.

Flatarmál er mælikvarði á hversu stórt svæði í sléttu er. Hentug mælieining fyrir flatarmál er ferningur með hliðarlengdir sem eru 1 lengdareining. Slíkur ferningur kallast einingarferningur og hefur flatarmálið 1 fereining. Slík mælieining fyrir flatarmál hvílir vitanlega á vali á mælieiningu fyrir lengd.

Bogagráða

Bogagráða, eða einfaldlega gráða, er mælieining sem oft er notuð til að mæla stærð hringboga og horna. Hún er fengin með því að skipta boga hrings í 360 eins boga. Hver litlu boganna er þá sagður spanna eina bogagráðu af hringnum, táknað með $1^\circ$. Horn með oddpunkt í miðju hringsins sem spannar einn af þessum 360 bogum kallast þá einingarhorn og hefur stærðina $1^\circ$.

Gráðubogi er tæki sem er notað til að mæla stærð horna með bogagráðum. Gráðubogi er ýmist hringur eða hálfhringur og miðja hringsins er þá einnig kölluð miðja gráðubogans. Hér verður lýst gráðuboga sem er hálfhringur. Þá er bogi gráðubogans merktur með tölunum frá $0$ og upp í $180$ með jöfnu millibili.

Nota má horn sem spannar eina bogagráðu sem mælieiningu til að mæla stærð annarra horna. Slíkt horn kallast þá einingarhorn. Niðurstaða mælingarinnar kallast þá gráðumál hornsins. Einnig er sagt að hornið sé svo og svo margar gráður.

Syndicate content