Skip to Content

Erlendar keppnir

Eystrasaltskeppnin
Eystrasaltskeppnin er liðakeppni þar sem hver þátttökuþjóð sendir lið skipað fimm nemendum og fá liðin 20 dæmi til að leysa. Þetta fyrirkomulag gerir keppnina skemmtilega, því árangurinn veltur ekki eingöngu á getu keppenda, heldur skiptir líka máli hvernig liðið vinnur saman og skiptir með sér verkum. Eystrasaltskeppnin byrjaði sem keppni milli Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, en síðan bættust við hin löndin kringum Eystrasaltið (öll eða hlutar þeirra), auk Íslands, þ.e. Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Pólland, Norður-Þýskaland og Sankti Pétursborg. Keppnin er yfirleitt haldin fyrstu eða aðra helgina í nóvember og skiptast löndin á um að halda keppnina.

Norræna stærðfræðikeppnin
Norræna stærðfræðikeppnin er einstaklingskeppni milli framhaldskólanema frá Norðurlöndunum fimm, Íslandi, Noregi, Danmörk, Svíþjóð og Finnlandi. Keppnin fer fram bréfleiðis þannig að hver keppandi leysir keppnisverkefnið í sínum skóla og er hún yfirleitt haldin í lok mars eða byrjun apríl. Löndin skiptast á um að hafa yfirumsjón með keppninni, en í því felst að velja dæmi í keppnina og samræma stigagjöf.

Ólympíuleikarnir í stærðfræði
Ólympíuleikarnir í stærðfræði eru haldnir í júlímánuði ár hvert og má hvert þátttökuland senda allt að sex keppendur. Auk þess að hafa ekki byrjað nám á háskólastigi mega keppendur ekki hafa náð 20 ára aldri fyrir 1. júlí það ár sem keppnin er haldin. Keppnisdagarnir eru tveir og fá keppendur þrjú dæmi hvorn dag og fjóra og hálfan tíma til að leysa þau. Ísland hefur tekið þátt síðan 1985 og í seinni tíð nær alltaf sent fullskipað lið. Ólympíudæmin byggja á stærðfræði sem lítið er kennd í framhaldskólunum, en einnig er nauðsynlegt fyrir keppendur að hafa fengið æfingu í að leysa slík dæmi. Þess er því krafist að íslensku keppendurnir taki þátt í þjálfun sem haldin er frá skólalokum að vori fram að brottför. Við þjálfunina nýtur framkvæmdanefndin meðal annars liðsinnis kennara frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.