Skip to Content

Tvær hálflínur með sama upphafspunkt mynda horn. Upphafspunktur hálflínanna kallast þá oddpunktur hornsins og hálflínurnar kallast armar þess. Á myndinni sést horn með oddpunkt $O$ og arma $h$ og $k$.

Þegar armar horns liggja ekki á sömu línu, þá er sagt að hornið sé eiginlegt horn. Ef hinsvegar armar horns eru gagnstæðar hálflínur, þá er sagt að hornið sé beint; en ef armar horns eru sama hálflínan, þá er sagt að hornið sé núllhorn.

Punktur sem ekki liggur á örmum eiginlegs horns er innaní horninu ef hann liggur á striki með endapunka á örmum þess, en utanvið hornið annars.

Horn kallast rétt horn ef armar þess eru þverstæðir. Öll rétt horn eru jafn stór og gráðumál þeirra er $90^\circ$. Rétt horn er yfirleitt auðkennt á mynd með því að setja ferning við oddpunkt þess.

Látum $l$ og $m$ vera tvær ólíkar línur og $n$ vera þriðju línuna sem sker hinar tvær í tveimur ólíkum punktum. Látum $O$ vera skurðpunkt $n$ við $l$ og $P$ vera skurðpunkt $n$ við $m$.

Þá myndast átta eiginleg horn sem hafa annan arm sinn á línunni $n$ og hinn arm sinn á línunum $l$ eða $m$. Þessi horn hafa oddpunkt $O$ eða $P$.

Gagnstæð horn

Gagnstæðar hálflínur við arma horns mynda nýtt horn. Nýja hornið er mótlægt horn upphaflega hornsins og sagt er að þessi tvö horn séu gagnstæð horn. Gagnstæð horn eru alltaf jafn stór.

Syndicate content